
UM OKKUR
BioBóndinn er lítill framleiðandi sem hefur það að markmiði að framleiða hágæða lífræn matvæli án tilbúins áburðar eða eiturs.
BioBóndinn er sérstaklega áhugasamur um plöntur sem eru duglegar og geta skilað ásættanlegri uppskeru án hjálpar í formi áburðar og hafa þol gagnvart algengum sjúkdómum. Undanfarin ár hefur BioBóndinn gert tugi tilrauna til að finna hentug yrki.
Orðið yrki er notað til að aðgreina mismunandi undirtegundir af jurtum, sem dæmi má nefna að Gullauga og Premium eru sitt hvort yrkið af kartöflum.
Þegar BioBóndinn er ánægður með kartöfluyrki fær hann aðstoð frá vinum sínum til að segja til um hvort uppskeran sé líkleg til vinsælda.
Snillingurinn Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari hefur leiðbeint BioBóndanum um hvaða yrki (munið, yrki er undirtegund af karbullu) vilji láta sjóða sig, steikja eða baka. Hvert yrki hefur sín einkenni svo sem bragð eða áferð.

Kartöflur geta verið þurrar, blautar, bragðmiklar eða með mildu bragði. Þær sem henta síður til að gera "franskar" geta verið stórkostlegar soðnar.
BioBóndinn þolir illa matarsóun svo þvert á ráðleggingar færustu sérfræðinga í markaðsmálum ætlar hann að bjóða "ljótar" kartöflur til sölu. Í allri matvælaræktun er hluti uppskerunnar útlitslega gallaður þó afurðin sé 100% í lagi, fyrir utan útlitið. Þetta getur orsakast af vélunum sem notaðar eru til að taka upp, flokkunartækjum eða öðru. Kartaflan getur því verið ljót að utan en góð að innan.

Byggið sem var ræktað í sumar mun fara í vinnslu hjá einum reyndasta lífræna kornbónda landsins, Eymundi í Vallarnesi á Héraði. Fyrirtæki hans og Eyglóar, Móðir jörð, mun vinna byggið okkar og selja undir sínu nafni. Ef þú hefur ekki prófað að skipta út hrísgrjónum fyrir bygg með máltíðinni þinni ertu að missa af miklu. Byggið þeirra er frábærlega gott og hefur auk þess þá kosti að hafa lægri "sykurstuðul" en hrísgrjón. Drífið ykkur út í búð og kaupið bankabygg eða perlubygg frá Móður jörð, það er meinhollur og góður matur. Ekki gleyma að kippa með þér lífrænu kartöflunum frá BioBóndanum í leiðinni!